Um ÞÚ GETUR

 Markmið Forvarna- og fræðslusjóðsins ÞÚ GETUR! eru:
  1. Að styrkja þá til náms sem orðið hafa fyrir áföllum eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða.
  2. Að efla þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna.
  3. Að draga úr fordómum gegn geðsjúkdómum.

Áföll og áhyggjur valda þjáningum og geta orsakað veikindi og skerðingu á getu. Umfjöllun um geðræna vanlíðan og fordóma er afar mikilvæg á tímum áfalla og álags sem nú eru á Íslandi. Álagstengda vanlíðan má með ýmsum ráðum bæta og góð meðferðarúrræði eru til gegn geðrænum veikindum. Að auki eru fræðsla og opin umræða mikilvægir þættir til forvarna og samstöðu.

Við sem að stöndum að stofnun sjóðsins vonum að vel takist til og að sjóðurinn verið öflugur. Við erum ótrauð í að leggja verkefninu allt það lið sem á okkar valdi stendur og vonumst eftir að sem flestir vilji taka þátt í því með okkur.
Sjóðurinn starfar á grundvelli laga nr. 19 frá 1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er undir opinberu eftirliti skv. sömu lögum. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Endurskoðun er í höndum endurskoðenda hjá Deloitte.
Stofnandi sjóðsins er dr. Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og í stjórn sitja auk hans, Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir, gjaldkeri, sr. Pálmi Matthíasson sóknarprestur í Bústaðasókn og dr. Sigurður Guðmundsson f.v. forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og f.v. landlæknir.
Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir er framkvæmdastjóri ÞÚ GETUR! Í undirbúningsnefnd tónleika eru einnig Jóhann Björn Ævarsson tónlistarmaður og Friðgeir Bergsteinsson.

Smelltu hér til að sjá skipulagsskrá sjóðsins.