HAM - Handbók um hugræna atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár í tengslum við ýmsan heilsuvanda, ekki síst þunglyndi og kvíða. Rannsóknir sýna að HAM er gagnleg aðferð til að ná og viðhalda bata í þunglyndi.

Í dag eru margir þeirrar skoðunar að fyrsta hjálp við sálrænum vanda felist í sjálfshjálp. Margar sjálfshjálparbækur hafa komið fram en undanfarið hefur í auknum mæli verið boðið upp á hugræna atferlismeðferð þar sem nýtt er tækni veraldarvefsins. Þetta hefur skilað árangri sem gefur fyrirheit um enn frekari útbreiðslu þessarar nálgunar.

Geðteymi Reykjalundar hefur gefið út nýja bók til notkunar fyrir almenning og fagaðila. Hana er einnig að finna á veraldarvefnum www.ham.reykjalundur.is.

Þær aðferðir sem þar eru kenndar hafa reynst hjálplegar við þunglyndi. Í meðaldjúpu og vægu þunglyndi getur sálræn meðferð ein og sér gagnast vel. Ekkert mælir þó á móti lyfjameðferð samhliða hugrænni atferlismeðferð. En í alvarlegu þunglyndi er mikilvægt að einstaklingurinn leiti sér hjálpar, því þá getur lyfjameðferð verið nauðsynleg.

Þessi meðferðarhandbók  er þróuð af starfsfólki geðsviðs Reykjalundar með það fyrir augum að hún nýtist sem leiðarvísir í meðferð við þunglyndi. Nú er þessi bók gefin út á almennan markað sem tæki til sjálfshjálpar, þegar um vægari form þunglyndis er að ræða, en líka til notkunar í meðferð með sérhæfðum meðferðaraðila. Samtímis er hún komin á veraldarvefinn þar sem nálgast má textann og verkefnin, bæði á ritformi og hljóðskrám, sem má hlaða niður og flytja á önnur tæki s.s. MP3-spilara ef vill.  Útgáfan á veraldarvefnum er gerð með það í huga að ná til sem flestra, þ.m.t. þeirra sem eiga við lesblindu að stríða, en hægt er að stækka letrið og setja inn litaðan bakgrunn, auk hljóðskránna. 

Bókin er í tólf köflum. Á vefnum er fyrsti kaflinn opinn án endurgjalds, en þriggja mánaða áskrift kostar aðeins 2000 kr. og með henni má nýta innihald bókarinnar að fullu.  Hverri keyptri bók fylgir 3 mánaða áskrift að vefútgáfunni. 

Fyrstu kaflarnir beinast að því að setja sér markmið, finna leiðir til að takast á við vandann og breyta hegðun. Í næstu köflum er áherslan á að þekkja tilfinningar og hugsanir og finna leiðir til að breyta neikvæðum hugsunarhætti til að hafa áhrif á líðan. Síðustu kaflarnir beinast svo að sjálfseflingu, bakslagsvörnum og hættumerkjum.

Í hverjum kafla er bæði fræðsla og verkefni. Það að vinna verkefnin getur hjálpað í bataferlinu, en ef ekki gengur sem skyldi er aðstoð fagaðila líkleg til að bæta árangurinn. Það tekur alltaf tíma að breyta gömlum venjum og hugsanamynstri svo það er mikilvægt að gefast ekki upp. 

Mörgum finnst efni bókarinnar eiga erindi til alls almennings. Ástæðan er sú að hægt er að nýta bókina sem tæki til að koma á betri reglu í lífinu, svo sem varðandi daglegar venjur eins og svefntíma, næringu og hreyfingu, en þessir þættir skipta allir verulegu máli fyrir almenna líðan. 

Hægt er að senda fyrirspurnir í vefpósti til meðferðaraðila á geðsviði Reykjalundar ham@reykjalundur.is. Allir starfsmenn geðteymisins komu á einhvern hátt að vinnslu bókarinnar en rit- og verkefnastjórn skipuðu Inga Hrefna Jónsdóttir, Helga Hinriksdóttir, Rósa María Guðmundsdóttir, Þórunn Gunnarsdóttir, Vera Siemsen og Valgerður Baldursdóttir.